Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Synjun námsstyrkjanefndar um greiðslu námsstyrks

Ár 2010, fimmtudaginn 2. desember, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur:

 

 

ÚRSKURÐUR

 

Kæruefnið.

 

Með bréfi til mennta- og menningarmálaráðuneytis, mótt. 23. júní sl., kærði A (hér eftir nefnd kærandi) þá ákvörðun námsstyrkjanefndar að synja umsókn hans um greiðslu námsstyrks vegna haustannar 2009.  Af bréfi kæranda má ráða að hann krefjist þess að ákvörðun námsstyrkjanefndar verði felld úr gildi og honum úrskurðaður námsstyrkur vegna náms síns við X á haustönn 2009.

 

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 1. júlí sl., var óskað eftir umsögn námsstyrkjanefndar og barst hún ráðuneytinu 9. ágúst s.l.  Þar kom fram sú afstaða að niðurstaða nefndarinnar væri í samræmi við lög og reglur og var farið fram á að ráðuneytið staðfesti úrskurð nefndarinnar frá 8. febrúar sl.  Kæranda var gefinn kostur á að koma að athugasemdum við svör námsstyrkjanefndar með bréfi ráðuneytisins, dags. 23. ágúst sl., en engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Málsatvik og málsástæður.

 

Með bréfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN), dags. 6. janúar sl., var kæranda tilkynnt að umsókn hans um styrk til jöfnunar á námskostnaði vegna náms á haustönn 2009 hefði verið hafnað.  Var í því sambandi vísað til 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 692/2003, um námsstyrki, með síðari breytingum.  Í bréfi LÍN kom fram að það væri skilyrði styrkveitingar samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar að nemandi stundaði reglubundið nám, sem skilgreint væri í 2. gr.  Þar kæmi fram að nemandi teldist hafa fullnægt skilyrði um reglubundið nám hafi hann tekið próf til fullnustu a.m.k. 12 eininga á önn sem teldist hluti af skipulögðu námi skóla eða skóli staðfesti námsárangur með ástundunarvottorði ef námi lyki ekki með prófi.  Var tekið fram í bréfinu að samkvæmt upplýsingum frá skóla uppfyllti kærandi ekki framangreint skilyrði og væri umsókn hans því hafnað.

 

Með rafbréfi áfangastjóra X til LÍN, dags. 12. janúar sl, kom fram að kærandi væri á lokaönn í prentun í skólanum, en vegna tækja og skipulags námsins væri ekki hægt að ljúka því námi nema með því að taka 10 einingar á tveimur önnum.  Kærandi hefði lokið 10 einingum á haustönn 2009 og stundaði nú 10 eininga nám í seinni hlutanum.  Í bréfi námsstyrkjanefndar til kæranda, dags. 8. febrúar sl., var tilkynnt um þá niðurstöðu nefndarinnar að ekki væri heimilt að veita kæranda styrk þar sem ekki hafi verið um lokaönn í náminu að ræða, sbr. a) lið 2. gr. reglugerðar nr. 692/2003.  Var synjun LÍN staðfest með vísan til þess. 

 

Með rafbréfi áfangastjóra X til LÍN, dags. 14. apríl sl., var óskað eftir endurskoðun á framangreindri ákvörðun námsstyrkjanefndar um synjun námsstyrks til kæranda.  Í bréfi námsstyrkjanefndar til kæranda, dags. 21. maí sl., hafnaði nefndin endurupptöku málsins með vísan til þess að engar nýjar upplýsingar kæmu fram í erindinu sem áhrif gætu haft á niðurstöðu málsins.

 

Með bréfi kæranda til mennta- og menningarmálaráðuneytis, mótt. 23. júní sl., var ákvörðun námsstyrkjanefndar um synjun námsstyrks kærð til ráðuneytisins.  Í bréfi kæranda kom fram að hann væri ekki sáttur við synjun námsstyrkjanefndar á þeim forsendum að nám hans á haustönn hefði aðeins verið 10 einingar.  Var jafnframt vísað til þess að áfangastjóri X hefði sent erindi til LÍN en kærandi fengið synjun aftur.  Fram kom að kærandi teldi þetta mjög óréttlátt því það væri verið að hvetja alla til að stunda nám og hann hefði getað stundað sitt nám án þess að hafa þurft að fá lán og ynni með skólanum.

 

Í umsögn námsstyrkjanefndar kom fram að kærandi hafi stundað nám í prentun við X á haustönn 2009 og tekið próf í 10 einingum.  Þar sem hann hafi eingöngu lokið prófi í 10 einingum og hvorki hafi verið um veikindi né lokaönn að ræða, sbr. a) lið 2. gr. reglugerðarinnar, hafi niðurstaða nefndarinnar verið sú að kærandi væri ekki styrkhæfur. 

 

Rökstuðningur niðurstöðu.

 

1.

Í lögum nr. 79/2003, um námsstyrki, er mælt fyrir um skilyrði styrkveitinga.  Í 2. gr. laganna er mælt fyrir um þau skilyrði sem nemendur þurfa að uppfylla til að eiga rétt á námsstyrk samkvæmt lögunum.  Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laganna skulu nemendur stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi.  

 

Sett hefur verið reglugerð nr. 692/2003, með síðari breytingum, á grundvelli 8. gr. laganna. Samkvæmt 1. gr. hennar eiga nemendur á framhaldsskólastigi sem fullnægja þar tilgreindum skilyrðum rétt á námsstyrk til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu, svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni.  Í a) lið 2. gr. reglugerðarinnar kemur fram skilgreining á hugtakinu „reglubundið nám.“  Með því er átt við að nemandi telst stunda reglubundið nám hafi hann tekið próf til fullnustu a.m.k. 12 eininga námi á önn sem telst hluti af skipulögðu námi skóla eða skóli staðfestir námsárangur með ástundunarvottorði, ef námi lýkur ekki með prófi.  Ef námi er ekki lokið vegna veikinda skal skóli staðfesta móttöku á fullgildu læknisvottorði.  Heimilt er að miða við sex einingar ef um lokaönn er að ræða og nemandi hefur lokið a.m.k. 12 einingum á undangenginni önn.

 

2.

Í niðurstöðu námsstyrkjanefndar, dags. 8. febrúar sl., er vísað til þess skilyrðis fyrir styrk að nemandi hafi stundað og gengið til prófs í a.m.k. 12 eininga námi á önn, sbr. a) lið 2. gr. reglugerðar nr. 692/2003.  Var niðurstaða nefndarinnar því sú að ekki væri heimilt að veita kæranda styrk þar sem ekki var um lokaönn í náminu að ræða.

 

Í 2. gr. laga um námsstyrki er afmarkað hverjir það eru sem njóti réttar til námsstyrkja samkvæmt lögunum.  Þá er kveðið á um það í 2. tl. 2. gr. að nemendur, sem njóti réttar til námsstyrkja samkvæmt lögunum, skuli stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi.  Í a) lið 2. gr. reglugerðar nr. 692/2003, um námsstyrki, sem sett hefur verið á grundvelli laganna, er að finna skilgreiningu á hugtakinu „reglubundið nám,“ samanber það sem að framan er rakið.  Í máli þessu liggur fyrir að kærandi lauk aðeins 10 eininga námi í prentun við X á haustönn 2009.  Þá kemur fram í gögnum málsins að ástæða þessa sé sú að vegna tækja og skipulags námsins sé ekki hægt að ljúka því námi nema með því að taka 10 einingar á tveimur önnum.  Að mati ráðuneytisins geta þær aðstæður ekki vikið til hliðar skýru og afdráttarlausu ákvæði tilvitnaðra laga og reglugerðar um námsstyrki.  Af því leiðir að kærandi telst ekki hafa uppfyllt skilyrði a) liðar 2. gr. reglugerðar nr. 692/2003 um að hafa lokið a.m.k. 12 eininga námi á haustönn 2009.  Teljast því skilyrði 2. gr. laga um námsstyrki, til að njóta réttar til námsstyrks samkvæmt lögunum, því ekki uppfyllt í máli þessu.

 

3.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að staðfesta hina kærðu ákvörðun eins og nánar greinir í úrskurðarorðum. 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Hin kærða ákvörðun um synjun námsstyrks til A, vegna náms á haustönn 2009, er staðfest.  

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum